Thursday, September 11, 2008

Krabbinn ég
Fann þetta á stjörnuspeki.is

Það er svo marg sem á mjög vel við mig en annað alveg langt frá því. Ég er kannski ekki rétta manneskjan til að meta það enda segi ég bara að það slæma sé vitlaust en það góða allt rétt...

Dæmi hver fyrir sig....


Krabbinn
Krabbinn er varkár og íhaldssamur tilfinningamaður. Hann fæðist í byrjun sumars og því ríkt í eðli hans að hlúa að nýgræðingi, rækta, hjálpa og ala upp. Aðhlynning er því lykilorð fyrir Krabbann. Þessi eiginleiki getur birst á margvíslegan hátt eftir aðstæðum. Krabbinn í viðskiptalífinu tekur að sér yngri skjólstæðinga og hjálpar þeim áfram og leikstjórinn í Krabbanum velur ungt fólk í lykilhlutverk.

Seigla og útsjónarsemi
Krabbinn er varkár og frekar hlédrægur um eigin hagi, en eigi að síður fastur fyrir og ákveðinn þegar á þarf að halda. Hann býr yfir hæglátri seiglu og er séður og útsjónarsamur. Varkárni Krabbans birtist þegar hann er að skoða ný mál. Hann opnar dyrnar til hálfs og tekur eitt skref fram á við til að kynna sér aðstæður. Síðan tekur hann tvö skref afturábak, dregur sig í hlé og skoðar málið í rólegheitunum. Hann vill hafa vaðið fyrir neðan sig og þreifa sig áfram. Það getur því tekið langan tíma að kynnast honum og þótt hann sýni áhuga bítur hann ekki endilega strax á agnið. Þegar hann hefur hins vegar tekið endanlega ákvörðun um að ganga í ákveðið verk berst hann með kjafti og klóm og gefst ekki auðveldlega upp.

Ábyrgðarkennd
Krabbinn hefur sterka ábyrgðarkennd og er yfirleitt traustur og samviskusamur. Hann vill leysa þau verk sem hann tekur að sér. Fyrir vikið er honum oft treyst fyrir ábyrgðarstörfum. Hann er einnig frumkvæður sem birtist í því að Krabbar taka oft að sér forystu á þeim sviðum sem þeir velja sér.

Íhaldssemi
Íhaldssemi Krabbans birtist m.a. í því að hann er fastheldinn á þær skoðanir sem hann temur sér eða á þá hluti sem honum eru kærir. Hann vill oft búa í gömlu húsi með sál, andrúmslofti og grónum garði. Það nýja og sálarlausa lítur hann hornauga. Íhaldssemin birtist einnig í sterkri öryggisþörf og því að hann safnar að sér hlutum, á erfitt með að henda því gamla og hugsar til þess að eiga varasjóð. Honum finnst óþægilegt að skulda eða búa við óvissu í sambandi við heimili, vinnu og fjármál. Oftast nær er Krabbinn mikill heimilismaður og fjölskylda, börn og nánir vinir skipta hann meira máli en gengur og gerist. Yngri Krabbar fela oft þessa eiginleika, enda ekki svalt að vera íhaldssamur heimilismaður á unglingsárum. Þá er hin fræga Krabbaskel sett upp, og svalt yfirborð látið hylja innri viðkvæmni.

Tunglsveiflur
Krabbinn er oft misjafn í skapi og framkomu. Karlmenn í merkinu eiga stundum til að vera hranalegir og fráhrindandi í framkomu, ekki vegna slæms upplags, heldur til að fela feimni. Tilfinningaríkum og næmum manni finnst oft að hann þurfi að verja sig og geti ekki hleypt hverjum sem er nálægt sér. Hann býr því til töff skel til að verja sig. Til að skilja skapgerð Krabbans er ágætt að líta á flóð og fjöru og kvartilaskipti Tunglsins. Tunglið er dimmt og ósýnilegt þegar það er nýtt en bjart og áberandi þegar það er í fyllingu. Skapgerð Krabbans er svipuð, stundum vill hann draga sig í hlé og vera einn með sjálfum sér, stundum er hann opinskár, hlýr og gefandi, jafnvel allra manna hressastur. Það getur því verið erfitt að reikna hann út. Eina stundina vill hann vera heima hjá sér, en þá næstu er hann reiðubúinn að fara út á lífið og rabba við fólk um daginn og veginn.

Náttúrubarn
Krabbinn er náttúrumaður, nýtur sín nálægt hafi eða vatni og þarf að hafa tré og gróður í umhverfi sínu. Sund og göngutúrar niður í fjöru eða út í sveit eru meðal þeirra íþróttagreina sem Krabbinn ætti helst að leggja stund á. Vatn og útivera hreinsa og endurnæra orku hans.
Þegar talað er um 'Krabbann' og 'Krabba', er átt við þá sem fæddust þegar Sólin var í Krabbamerkinu. Þeir einstaklingar sem fæddust á þeim árstíma hafa 'hjartað' í þessu merki, eða grunneðlið og lífsorkuna.
Staða Tunglsins í merki segir til um tilfinningar, staða Merkúrs um hugsun, Venusar um ást og samskipti, Mars um framkvæmdir, Rísandi merkis um framkomu og staða Miðhimins um (þjóðfélags)markmið. Hver einstakur maður er í nokkrum stjörnumerkjum og þess vegna eru gerð stjörnukort, en ekki bara fjallað um stjörnumerkin.

XXX

No comments: